Fyrir fólkið í borginni

Ég trúi því að lausnirnar fyrir Reykjavík sé að finna í félagshyggju — í því að byggja borg þar sem lífsgæði og réttlæti eru í forgrunni. Ég vil bjóða mig fram í komandi borgarstjórnarkosningum. 

Nú er kominn tími til að við, fólkið á vinstri vængnum, tökum höndum saman og búum til raunverulegt afl fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Við þurfum samstöðu og opið samtal. 

Vandinn í Reykjavík

Heimili fólks hefur verið markaðsvætt, verktökum, bröskurum og leigusölum til hagnaðar. Afleiðingarnar þekkjum við. Fólk þarf að flytja úr borginni til að finna húsnæði á viðráðanlegu verði eða festist í ömurlegum, ótryggum aðstæðum. 

Sjálfsögð þjónusta við börn eins og tómstundir eru of dýrar. Og hið sama má segja um almenningssamgöngur sem eru þar að auki tímafrekar. 

Reykjavík sem þjónar fólkinu

Borgin þarf að vera hugsuð út frá raunveruleikanum, sérstaklega þörfum barna, eldra fólks, leigjenda, ungs fólks og þeirra tekjulágu. 

Við þurfum öfluga þjónustu og hverfi þar sem stutt er í það sem skiptir máli: borg sem er einföld, þægileg og ódýrari fyrir okkur öll. 

Sanngjarnt skattkerfi er forsenda góðrar borgar

Það gengur ekki að þau tekjuhæstu og ríkustu greiði nánast ekkert til nærsamfélagsins. Þetta grefur undan getu borgarinnar til að veita öfluga þjónustu og bæta lífsgæði. 

Þetta þarf ekki að vera svona. Þetta þarf að laga og Reykjavík á að leiða baráttu um sanngjarnt og sjálfsagt útsvar á fjármagnstekjur þeirra ríkustu.

Takk fyrir traustið

Undanfarin tvö kjörtímabil hef ég lagt mig alla fram við að vinna fyrir borgarbúa sem þurfa á öflugu vinstra afli að halda. Ég er þakklát fyrir það traust sem þið hafið sýnt mér. Takk! 

Það er ekkert leyndarmál að innan sósíalistaflokksins hafa orðið miklar breytingar. Ný stjórn hefur skapað óvissu og togstreitu meðal félaga, bæði innan sem utan flokks. Fjöldi fólks hefur áhyggjur af því hvert flokkurinn stefnir. Ég skil þær áhyggjur mjög vel. 

En ég er sannfærð um að þessi tímabundna óvissa verði stuttur kafli í sögu flokksins. Kjarninn í minni nálgun er enn sá sami; efnahagslegt og félagslegt réttlæti.

Fólk fram yfir flokka

Ég starfa fyrir grasrótina og fólkið í borginni. Þess vegna ætla ég ekki að segja mig úr flokknum, þrátt fyrir þrýsting frá nýrri stjórn. Ég trúi því að á næsta aðalfundi taki fólk við stjórn sem hefur skýra sýn, heiðarleika og stuðning meirihluta félaga. 

Þar til ætla ég að halda áfram að vinna af fullum krafti fyrir þau gildi sem sameina vinstra fólk. Því baráttan framundan er stærri en flokkar. Baráttan krefst samstöðu allra þeirra sem vilja réttlátari, ódýrari og lífvænlegri borg.

Gerum þetta saman

Við sem vitum að félagshyggjan er svarið við vanda borgarinnar þurfum að sýna ábyrgð, sameinast og skapa grundvöll fyrir öflugt vinstra framboð í þágu fólksins í borginni — óháð flokksmerkjum.

Við þurfum sameiginlegan vettvang þar sem hugmyndir fólks fá að blómstra og vinna út frá því sem sameinar, en ekki því sem sundrar okkur. 

Þó að ég bjóði til samtals um borgina, þá veit ég að þetta er stærra verkefni. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er víða sá sami. Fólki í öðrum sveitarfélögum er velkomið að taka þátt og tengjast öðrum. Þannig stöndum við sterk.

Gerum þetta saman því við viljum vor til vinstri!


Sanna Magdalena Mörtudóttir